Tilgangur
Mannréttindastefnan lýsir áherslum KAPP í mannréttindamálum. Markmið stefnunnar er að tryggja að KAPP uppfylli allar kröfur laga og reglna um mannréttindamál og sé í fararbroddi á þessu sviði. Þannig teljum við að KAPP geti stuðlað að betra samfélagi og að mannauður félagsins verði sem öflugastur þar sem jöfn tækifæri einstaklinga séu tryggð.
Umfang
Mannréttindastefnan nær til allrar starfsemi félagsins. Árlega er gerð aðgerðaáætlun í mannréttindamálum og árangur liðins árs mældur..
Stefna
Það er stefna KAPP að gæta jafnréttis milli einstaklinga óháð kynþáttar, þjóðernisuppruna, trúar, lífsskoðunar, fötlunar, skertrar starfsgetu, aldurs, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna, kyntjáninga, búsetu og efnahag. Hver starfsmaður skal metinn og virtur að verðleikum á eigin forsendum. Með jafnri stöðu einstaklinga nýtist sú auðlegð sem felst í bakgrunni, menntun, reynslu og viðhorfi þeirra.
Jafnlaunastefna
Við ákvörðun launa og fríðinda skal þess gætt að kynjum sé ekki mismunað. Starfsfólki skulu greidd jöfn laun og skulu þau njóta sömu kjara fyrir jafn verðmæt og sambærileg störf í samræmi við lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr. 150/2020 og lög nr.86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði.
Þess skal einnig gætt að starfsmenn sitji við sama borð hvað kjarasamningsbundin réttindi og skyldur varðar og miðar KAPP við Kjarasamninga hvað það varðar.
Til að uppfylla skilyrði laganna og jafnlaunastefnunnar hefur verið skilgreint ákveðið verklag við launaákvarðanir sem hefur það að markmiði að tryggja heildaryfirsýn yfir laun, stöðugar umbætur á launakerfinu og eftirlit með kynbundnum launamun.
Við launaákvarðanir er stuðst við starfaflokkun, skilgreind launaviðmið og persónubundið frammistöðumat.
Til að mæla árangur af jafnlaunastefnu skal KAPP árlega standast óháða vottun samkvæmt ÍST85 staðlinum og tryggt að jafnlaunakerfi KAPP uppfylli kröfur reglugerðar 1030/2017 og lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr. 150/2020 um vottanir á jafnlaunakerfum fyrirtækja og stofnanna. Ef óútskýranlegur kynbundinn launamunur greinist skal það skráð sem frávik og gerð áætlun um úrbætur til að leiðrétta þennan mun.
Unnið er í því að klára jafnlaunavottun KAPP en nú þegar er verið að innleiða allt ofangreint.
Þátttaka í vinnu- og verkefnahópum
Þegar skipað er í vinnuhópa ræður fagþekking mestu um val einstaklinga. Stefnt skal að jöfnum hlut kvenna og karla, eftir því sem við verður komið, sem og að valið endurspegli sem best þverskurð af starfsmannahópnum hverju sinni. Stjórnendur eiga að hafa þetta ákvæði í huga þegar skipað er í vinnu- eða verkefnahópa.
Auglýsingar
Öll störf skulu opin til umsóknar fyrir einstaklinga óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertrar starfsgetu, aldurs, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna eða kyntjáningu. Í starfsauglýsingum eru störf ókyngreind og þess gætt að útiloka ekki fólk út frá neinum þáttum sem stefna þessi nær til. Í auglýsingum og kynningarefni félagsins er talað við fólk af virðingu og leitast við að móðga ekki eða særa blygðunarkennd neins.
- Leitast skal við að hafa kynjahlutföll sem jöfnust innan deilda og sviða og að samsetning starfsmannahópsins í heild endurspegli breiða þekkingu, bakgrunn og skoðanir.
- Árlega skal taka saman kynjahlutföll í öllum starfshópum ásamt yfirliti yfir auglýst störf, umsækjendur og ráðningar.
Starfsþróun
Stefna KAPP er að í stjórnendahópi séu sem jöfnust kynjahlutföll. Jafnréttissjónarmið skulu metin til jafns við önnur mikilvæg sjónarmið sem ráða við stöðuveitingar.
- Kynjahlutföll eru höfð í huga við stöðuhækkanir.
- Árlega skal gerð samantekt á kynjahlutföllum meðal stjórnenda og stjórnar.
Starfsþjálfun og endurmenntun
Tryggt skal að allir starfsmenn njóti sömu möguleika á starfsþjálfun og til sí- og endurmenntunar.
- Tryggja skal að starfsþjálfun og endurmenntun sé aðgengileg öllum starfsmönnum.
- Árlega skal gerð greining á sókn kvenna og karla í sambærilegum störfum í endurmenntunarnámskeið og í starfsþjálfun.
- Ef í ljós kemur að hallar á annað kynið skal mannauðsstjóri greina ástæður og ráðast í aðgerðir til jafna tækifæri til símenntunar.
Samræming vinnu og einkalífs
KAPP lítur á það sem samfélagslega ábyrgð sína að hlúa vel að starfsmönnum og fjölskyldum þeirra. Leitast er við að gera starfsmönnum kleift að samræma starfsskyldur sínar og skyldur gagnvart fjölskyldu sbr. 21 gr. jafnréttislaga með sveigjanlegum vinnutíma, hlutastörfum, lengra fæðingarorlofi eða annarri vinnuhagræðingu, eftir því sem við verður komið. Starfsmenn hafa auðvelt aðgengi að upplýsingum um þessi mál í starfsmannahandbók og á innri vef félagsins.
Starfsandi og líðan starfsmanna
KAPP býður upp á starfsumhverfi sem laðar að sér hæft starfsfólk og skapar starfsmönnum tækifæri til að eflast og þróast í starfi. Allir starfsmenn eiga rétt á að komið sé fram við þá af virðingu og heiðarleika. Starfsmenn hafa sett sér samskiptareglur sem er að finna í starfsmannahandbók og er kynnt öllum nýjum starfsmönnum. Einelti líðst ekki hjá félaginu og eru starfsmenn hvattir til að tilkynna strax ef þeir verða varir við slíka hegðun. Mótað hefur verið verklag skv. reglugerð nr. 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum og lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, um hvernig taka skuli á slíkum málum ef þau koma upp. Upplýsingar um verklagið og skilgreiningu á því hvað flokkast sem einelti er að finna í gæðakerfi félagsins. Starfsmenn og nýliðar fá reglulega kynningu á þessum málum.
Kynbundið ofbeldi, kynferðisleg og kynbundin áreitni
Kynbundið ofbeldi, kynferðisleg og kynbundin áreitni líðst ekki og eru starfsmenn hvattir til að tilkynna strax ef þeir verða varir við slíka hegðun. Mótað hefur verið verklag skv. reglugerð nr. 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum og lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, um hvernig taka skuli á slíkum málum ef þau koma upp. Upplýsingar um verklagið og skilgreiningu á því hvað flokkast sem kynferðisleg og kynbundin áreitni er að finna í starfsmannahandbók félagsins. Fyrirtækið hefur einnig skuldbundið sig til að vinna að forvörnum og fræðslu til að sporna við þess háttar hegðun á vinnustaðnum. Starfsmenn og nýliðar fá reglulega kynningar og forvarnarfræðslu um þessi mál.
Spillingar- og mútumál
KAPP berst gegn hvers kyns spillingu og mútum. Félagið hefur sett sér siðareglur þar sem skýrar reglur og viðmið eru sett varðandi:
- Gagnsæi, samskipti og upplýsingagjöf.
- Góða viðskiptahætti og upplýsingaöryggi.
- Réttindi og skyldur starfsmanna.
- Hagsmunatengsl.
- Meðferð ábendinga og kvartana.